Um Ólafíu

Ritið er nefnt eftir dr. Ólafíu Einarsdóttur dósent emeritus við Háskólann í Kaupmannahöfn. Ólafía var fyrst Íslendinga til að ljúka háskólaprófi í fornleifafræði. Hún var sæmd heiðursdoktorsnafnbót Sagnfræði- og heimspekideildar Háskóla Íslands þann 29. nóvember 2009. Markmiðið með útgáfu ritsins er að skapa hefð fyrir íslenskri hugtakanotkun í fornleifafræði með birtingu nýs jafnt sem þýðingu eldra efnis.

Ólafía er nú í fyrsta skipti gefin út fyrir styrk úr Ólafíusjóðnum sem tók formlega til starfa í ársbyrjun 2013. Ólafía Einarsdóttir, sem ritið er nefnt eftir, gaf sjálf stofnfé í sjóðinn til þess að tryggja útgáfu fagrits um íslenska fornleifafræði.

Ólafía fæst í Safnbúð Þjóðminjasafns Íslands, Bóksölu stúdenta og hjá útgefanda.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast áskrifendur að Ólafíu geta sent póst á felagfornleifafraedinga.ff@gmail.com.

ÓlafíaV.jpg

Ólafía V. hefti - október 2015

Í heftinu birtast alls sjö nýjar og tvær þýddar greinar. Ritið er að þessu sinni tvískipt en snertifletirnir eru þó sannarlega til staðar. Í fyrri hlutanum leiða fornleifafræðin og safnafræðin saman hesta sína og höfundar kanna snertifleti og sameiginleg viðfangsefni. Í seinni hlutanum er viðfangsefnið tímatalsfræðin. Ritstjórar eru Sólrún Inga Traustadóttir, Guðrún Dröfn Whitehead og Kristján Mímisson.

Verð 2300 kr fyrir félagsmenn en annars 3300 kr. Eldri hefti (II., III., og IV. hefti) fást með á 500 kr stykkið á meðan birgðir endast

ÓlafíaII.jpg

Ólafía II. hefti – 2007

Annað hefti Ólafíu, rits Fornleifafræðingafélags Íslands (FFÍ) kom út árið 2007. Heftið, sem ber að yfirskriftina Félagatal, inniheldur eingöngu greinar eftir félagsmenn FFÍ. Fjórar greinarnar eru þýddar en þær eru eftir dr. Ólafíu Einarsdóttur: „Um vald húsfreyja á Íslandi á fyrri tíð.“, dr. Lotte Hedeager: „Af mönnum og dýrum og þess konar skepnum : dýraskreyti og yfirskilvitlegur veruleiki þess.“, dr. Anders Andrén: „„Mission impossible?“: fornleifafræðileg rannsókn á sameiginlegum átrúnaði norrænna manna.“, og dr. Jesse Byock og samstarfsmenn hans: „Valdamiðstöð í Mosfellsdal : rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú og Mosfelli” en Ólafía, Lotte og Anders eru öll heiðursfélagar í FFÍ. Þrjár nýjar greinar eru auk þess í heftinu en þær eru eftir dr. Bjarna F. Einarsson: „Kuml og samfélag : hugmyndir um hvaða upplýsingar kuml geta geymt um gengin samfélög.“, Dagnýju Arnarsdóttur: „Er rétt að setja verðmiða á menningarminjar?“ og Sigrid Cecilie Juel Hansen: „Walrus tusk and world system theory : exploring the possibilities.“.

Ritstjórar Félagatals voru dr. Steinunn Kristjánsdóttir og Vala Björg Garðarsdóttir.

Verð 1500 kr.

ÓlafíaIV.jpg

Ólafía IV. hefti – maí 2012

Fjórða hefti Ólafíu kom út í maí 2012. Í því eru birtir ítarlegir útdrættir úr nýjum meistararitgerðum í fornleifafræði. Greinarnar í heftinu eru: „Skólapiltar í Skálholti – vitnisburður úr svefnstofunni.“ Höfundur Ágústa Edwald. „Fornar leiðir á Íslandi. Tillaga að skilgreiningu flokkun og skráningu.“ Höfundur Kristborg Þórsdóttir. „Þegar á unga aldri lifi ég enn. Barnafornleifafræði: Greftrun barna á kaþólskum tíma á Íslandi.“ Höfundur Ragnheiður Gló Gylfadóttir. „„Undir mold og steinum…“ Rýnt í stöðu kynjafornleifafræði á Íslandi.“ Höfundur Sandra Sif Einarsdóttir. „Að opna öskju Pandóru.“ Höfundur Sindri Ellertsson Csillag. „Fé og frændur í eina gröf. Hugleiðingar um kuml og greftrun í íslensku samhengi.“ Höfundur Þóra Pétursdóttir.

Því miður urðu þau leiðu mistök við uppsetningu að texti færðist til í grein Sindra „Að opna öskju Pandóru.“ en hala má niður leiðréttri útgáfu með því að smella á titil greinarinnar.

Verð 3200 kr, 2800 kr fyrir nema.

ÓlafíaI.jpg

Ólafía I. hefti – 2006

Fyrsta hefti Ólafíu kom út í mars 2006. Ritstjóri þess var dr. Steinunn Kristjánsdóttir og ber heftið yfirskriftina Kynjafornleifafræði. Það inniheldur níu fræðigreinar um kynjafornleifafræði. Höfundar þeirra eru nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands, annars vegar í námskeiðinu Kynjafornleifafræði, sem kennt var í grunnnámi vorið 2005 og hins vegar námskeiðinu Félagsleg fornleifafræði, sem kennt var á meistarastigi haustið eftir.

Auk greina þeirra og inngangsgreinar ritstjóra er í ritinu þýdd grein eftir dr. Robertu Gilchrist, prófessor við Háskólann í Reading, en hún hefur leitt rannsóknir á þessu sviði innan breskrar miðaldafornleifafræði undanfarinn áratug.

I. hefti er því miður uppselt hjá félaginu.

ÓlafíaIII.jpg

Ólafía III. hefti – 2009

Rannsóknir á miðaldaverslunarstaðnum Gautavík eftir Torsten Capelle

Í ritinu er að þessu sinni birt íslensk þýðing skýrslunnar ‘Untersuchungen auf dem mittelalterlichen Handelsplatz Gautavik, Island’ eftir Torsten Capelle prófessor. Í skýrslunni, sem kom út hjá Rheinland forlaginu í Köln árið 1982, er greint frá fornleifarannsókn sem fram fór á miðaldaverslunarstaðnum í Gautavík á árunum 1979-1980 undir stjórn Capelle. Honum til aðstoðar við rannsóknina voru Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur og Guðrún Larsen jarðfræðingur. Eiga þau bæði færslur í skýrslunni.

Gautavík , sem er staðsett í austanverðum Berufirði eystri, var verslunarstaður og aðalhöfn Austurlands á miðöldum. Um víkina rennur Búðaá

og má greina rústir verslunarstaðarins beggja vegna hennar, auk óljósra leifa hafnar þar framaf. Umsvif staðarins voru flutt á síðari hluta 16. aldar, fyrst til Fúluvíkur og síðar til Djúpavogs við mynni Berufjarðar þar sem verið hefur kauptún og höfn síðan þá. Rústir miðaldakaupstaðarins voru friðlýstar af Kristjáni Eldjárn árið 1964. Uppgröfturinn sem fram fór á þeim hefur ekki notið verðskuldaðrar athygli vegna til þessa en vonandi verða með útgáfunni gögn og niðurstöður þaðan nýtt til frekari úrvinnslu og rannsókna á verslun á miðöldum hérlendis.

Þýðendur skýrslunnar voru Ólafur Ögmundsson og Auður Sigurðardóttir.

Ritstjóri var dr. Steinunn Kristjánsdóttir þáverandi formaður Fornleifafræðingafélags Íslands.

Verð 1500 kr.