Lög félagsins

1. gr. Félagið heitir Félag fornleifafræðinga, skammstafað FF. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk félagsins er að efla fornleifafræði á Íslandi.
Félagið mun gegna þessu hlutverki með því að:
a. stuðla að faglegum vísindarannsóknum og vandaðri umfjöllun um árangur þeirra í ræðu og riti sem og að halda úti heimasíðu,
b. efna til umræðufunda og ráðstefnuhalds,
c. gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna,
d. beita sér fyrir löggildingu starfsheitisins fornleifafræðingur,
e. beita sér fyrir auknum reynslu- og menntunarkröfum við veitingu uppgraftarleyfa.

3. gr. Þeir sem lokið hafa viðurkenndu lokaprófi í fornleifafræði frá háskóla geta orðið fullgildir félagsmenn. Nemendur í fornleifafræði geta sótt til stjórnar um aukaaðild sem ekki veitir atkvæðisrétt á fundum en þátttökurétt í öðru starfi. Þá er stjórn félagsins heimilt að tilnefna heiðursfélaga og meta umsóknir um inngöngu í félagið sem falla ekki að almennum inngönguskilyrðum.

4. gr. Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum til tveggja ára í senn, þ.e. formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda auk þriggja varamanna. Kosinn er formaður, ritari og tveir varamenn annað árið en varaformaður, gjaldkeri, meðstjórnandi og einn varamaður hitt árið. Kosningar fara fram á aðlafundi ár hvert. Samsetning stjórnar félagsins skal endurspegla samsetningu félagsmanna, bæði hvað varðar kyn og menntun.

5. gr. Kosningar í stjórn og nefndir félagsins skulu vera skriflegar og sama gildir um tilnefningar í opinberar nefndir eða aðrar tilnefningar félagsins. Hætti stjórnarmaður á kjörtímabilinu skal varamaður taka hans stað fram að aðalfundi þegar kosið er í embættið.

6. gr. Skrifleg beiðni um inngöngu í félagið skal lögð fyrir stjórn þess, ásamt afriti af prófskírteini. Aðalfundur samþykkir nýja félaga formlega. Úrsögn úr félaginu þarf einnig að berast stjórn/formanni þess skriflega. Úrsögn úr félaginu tekur gildi um önnur mánaðamót eftir að hún berst félagsstjórn. Hafi félagi ekki greitt félagsgjald í tvö ár í röð telst hann hafa sagt sig úr félaginu

7. gr. Félagið setur sér siðareglur sem byggja á siðareglum evrópskra fornleifafræðinga EAA (European Association of Archaeologists, Codes of Practice). Siðanefnd skal skipuð þremur mönnum, tveir eru kosnir á aðalfundi og koma úr félaginu en sá þriðji skal vera utan félagsins. Varamenn eru skipaðir á sama hátt. Nefndarmenn velja sér formann. Siðanefnd situr í tvö ár í senn. Siðanefnd skal úrskurða í kærumálum og fjalla um siðferðileg álitamál sem rísa kunna innan félagsins. Stjórn félagsins ákveður um frekari aðgerðir byggt á úrskurðum siðanefndar. Úrskurður siðanefndar er endanlegur. Um breytingar á siðareglum félagsins gilda sömu ákvæði og um breytingar á lögum þess í 11. gr.

8. gr. Aðalfund skal halda ár hvert eigi síðar en 1. desember. Skal hann boðaður skriflega ásamt dagskrá með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur skal auglýstur á heimasíðu félagsins. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða afgreiðslu mála, nema félagslög kveði á um annað.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1)     Kosning fundarstjóra

2)     Nýir félagar samþykktir

3)     Skýrsla liðins árs

4)     Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins og Ólafíu

5)     Kosning formanns (annað hvert ár)

6)     Kosning stjórnar (annað hvert ár)

7)     Kosnir skoðunarmenn reikninga (annað hvert ár)

8)     Kosning í siðanefnd (annað hvert ár)

9)     Ritstjóri og ritnefnd Ólafíu kosin annað hvert ár

10)   Kosning í önnur embætti og nefndir eftir því sem við á

11)    Ákvörðun félagsgjalda

12)    Tillögur að lagabreytingum

         13)     Önnur mál

Aðrir félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn sér ástæðu til. Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfundar. Skal hann boðaður með sama hætti og aðalfundur og fundarefni tilgreint í fundarboði. Stjórn er skylt að boða til aukaaðalfundar ef meirihluti fullgildra félagsmanna krefst þess skriflega og tilgreinir fundarefni.

9. gr. Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi. Þeir félagar sem greitt hafa félagsgjöld hafa einir atkvæðisrétt á aðalfundi.

10. gr. Félag fornleifafræðinga gefur út ritröðina Ólafíu. Stefnt skal að útgáfu þess annað hvert ár. Hvert rit skal að öllu jöfnu tileinkað ákveðnu þema og birtir efni því tengdu í formi fræðigreina eða ritgerða. Ritstjóri hvers heftis er kosinn á aðalfundi annað hvert ár auk tveggja fulltrúa í ritnefnd sem verða ritstjóra innan handar við útgáfu heftisins. Ritið skal vera ritrýnt þegar þema þess miðast við birtingu stakra greina, sem ekki hafa verið gefnar út áður. Efni þess skal að öllu jöfnu vera ritað á íslensku til þess að skapa hefð fyrir notkun hugtaka í fornleifafræði á íslensku. Heimilt er að birta greinar í því á öðrum tungumálum. Ólafía er gefin út fyrir fé úr styrktarsjóði Ólafíu Einarsdóttur, sjálfsaflafé í formi styrkja, sölutekna og annarra framlaga. Fjárhagur ritsins skal vera sjálfstæður og óháður fjárhag félagsins.

11. gr. Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á löglega boðuðum aðalfundi með tveimur þriðju greiddra atkvæða. Tillögur um lagabreytingu skulu hafa borist stjórn félagsins a.m.k. einni viku áður en boðað er til aðalfundar sbr. 8. gr. Tillögur um lagabreytingar skulu tilkynntar skriflega til félagsmanna viku fyrir aðalfund vikum áður en boðað er til aðalfundar sbr. 8. gr. Félaginu verður einungis slitið á aðalfundi með 2/3 hluta fullgildra atkvæða og skal slíkrar tillögu vera getið í fundarboði. Verði félaginu slitið á lögmætan hátt skal eignum þess varið til góðgerðamála.

 

Lög með breytingum sem gerðar voru á aðalfundi Félags fornleifafræðinga 27. nóvember 2014 og 5. nóvember 2015.


Siðareglur félagsins

Almennt:

Fornleifarannsóknir eru mikilvægar til að skilja og þekkja menningararf okkar. Sú þekking á horfnum samfélögum sem fæst við rannsóknir á fornminjum ermenningarleg sameign allra og ætti að vera öllum aðgengileg. Það er siðferðileg skylda allra félaga að sýna menningararfinum, faginu og öðrum fornleifafræðingum virðingu. Á fornleifafræðingum hvílir sú skylda að stuðla að varðveislu fornminja og haga rannsóknum sínum á þann veg að þær valdi sem minnstu raski en veiti sem áreiðanlegastar upplýsingar. Með því að samþykkja siðareglurnar viðurkenna fornleifafræðingar þessar skyldur. Fornleifafræðingar skulu leggja sitt af mörkum til þess að siðareglur þessar séu almennt virtar af félagsmönnum og stuðla að því að aðrir fornleifafræðingar taki þær upp.

Almennar vinnusiðareglur:

1. Fornleifafræðingar skulu sinna starfi sínu með þeim hætti að þeir varpi hvorki rýrð á fagið né félagið og uppfylla ströngustu kröfur um faglega og siðferðilega ábyrgð í starfi sínu.

2. Fornleifafræðingum ber skylda til að stuðla að verndun fornminja með öllum löglegum ráðum. Fornleifafræðingar skulu vinna að varðveislu fornleifa í nútíð og framtíð. Þeim ber skylda til að tryggja að rannsóknir á minjum séu vandlega og faglega unnar. Saga minjanna skal vera varðveitt með skráningu sem og útgáfu upplýsinga og niðurstaðna úr rannsóknum.

3. Fornleifafræðingar taka ekki þátt í eða leggja nafn sitt við nokkurs konar athæfi þar sem menningararfurinn er nýttur án þess að gætt sé að faglegum gæðum eða varðveislu hans.

4. Það er skylda allra fornleifafræðinga að vekja athygli þar til bærra yfirvalda á hvers konar hættu sem steðjar að minjum, s.s. vegna framkvæmda, skemmdarverka, náttúruvár, þjófnaðar eða ólöglegrar verslunar með menningarverðmæti og nota öll tiltæk ráð til að tryggja að viðkomandi yfirvöld grípi til nauðsynlegra ráðstafana í slíkum málum.

5. Fornleifafræðingum ber að hafa samráð og samvinnu við aðra fornleifafræðinga um sameiginleg viðfangsefni. Þeim ber að virða áhuga starfssystkina sinna og rétt þeirra til upplýsinga um minjastaði, rannsóknarsvæði, muni og gögn þar sem viðfangsefni þeirra skarast.

6. Fornleifafræðingum ber að sýna vinnu annarra fornleifafræðinga tilhlýðilega virðingu og mega ekki eigna sér verk þeirra eða hugmyndir.

7. Fornleifafræðingar skulu í starfi sínu forðast óheiðarleika og rangfærslur. Ekki skulu þeir vísvitandi leggja nafn sitt við neinar athafnir af því tagi og ekki heldur umbera þær hjá starfsfélögum sínum.

8. Fornleifafræðingum ber að varast að veita faglega ráðgjöf eða tjá sig opinberlega, eða fyrir dómstólum, um fornleifafræðileg málefni nema þeir hafi áður kynnt sér þau nægilega.

9. Við ráðningar skulu fornleifafræðingar gæta hlutleysis og sanngirni og forðast hvers lags mismunun s.s. vegna trúar, kynferðis, aldurs, kynþáttar, fötlunar eða kynhneigðar.

10. Fornleifafræðingar skulu forðast hvers kyns hagsmunaárekstra, sérstaklega milli þátta sem snúa að stjórnsýslu og framkvæmda á opnum markaði.

Siðareglur í vettvangsvinnu:

11. Við verkefnastjórnun fornleifarannsókna ber fornleifafræðingum að kynna sér lög og reglur sem gilda um störf þeirra og öryggismál og hlíta þeim í hvívetna.

12. Fornleifafræðingar skulu reyna að takmarka áhrif rannsókna sinna á umhverfið og ganga frá rannsóknarsvæði eins og best verður á kosið í samráði við landeigendur og þar til bær yfirvöld.

13. Fornleifafræðingar skulu ætíð undirbúa sig af kostgæfni fyrir þau verkefni sem þeir taka að sér og ekki taka að sér fornleifarannsóknir sem þeir eru ekki færir um að sinna.

14. Vönduð rannsóknaráætlun er forsenda hverrar rannsóknar. Áætlun um forvörslu og endanlega geymslu gripa, sýna og annarra gagna skal ávallt gerð áður en rannsókn hefst.

15. Við allar rannsóknir skulu fornleifafræðingar tryggja að rannsóknargögn séu skráð á fullnægjandi hátt og þau varðveitt á varanlegu formi, samkvæmt gildandi lögum og reglum.

16. Fornleifafræðingum ber skylda til að upplýsa almenning um tilgang og niðurstöður rannsókna á sem skýrastan hátt. Þeim ber að kynna niðurstöður fornleifarannsókna á ábyrgan og heiðarlegan hátt og forðast ýkjur og villandi staðhæfingar um fornleifafræðileg málefni. Fornleifafræðingar skulu ganga frá nákvæmum og skýrum skýrslum um rannsóknir sínar eins fljótt og auðið er. Þeir skulu gera niðurstöður rannsókna sinna aðgengilegar.

17. Fornleifafræðingar skulu fá skriflegt leyfi fyrir notkun óbirtra gagna úr rannsóknum annarra fornleifafræðinga og gera grein fyrir ábyrgðamanni gagnanna þegar til þeirra er vitnað. Vitna ber í slík gögn eins og aðrar heimildir.

 

Samþykktar á aukaaðalfundi Félags fornleifafræðinga 30. mars 2015